Landsfundur VG vill fresta stórframkvæmdum í vegagerð á höfuðborgarsvæðinu. Tillaga VG er að lagðir verði 10 milljarðar í eflingu almenningssamganga á næstu 10 árum. Framlag ríkisins komi á móti framlagi sveitarfélaga og endurskoðist á tveggja ára fresti að fenginni reynslu af verkefninu.

Landsfundur VG ályktaði einnig um sjávarútvegsmál og var ályktunin eftirfarandi:

"Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs ítrekar mikilvægi þess að á 140. löggjafarþingi verði lögð fram og afgreidd ný lög um stjórn fiskveiða. Landsfundurinn telur þær breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu sem nú þegar hafa náð fram að ganga skipta miklu máli. Breytingarnar hafa skapað fjölda starfa og leitt til eflingar sjávarbyggða, nýliðunar í greininni og aukins hagnaðar samfélagsins. Auðlindir sjávar skulu vera í þjóðareigu og jafnræðis skal beitt við úthlutun þeirra svo tryggja megi búsetuöryggi sjávarbyggða landsins. Tryggt sé skýrt eignarhald þjóðarinnar á auðlindum sjávar og komið verði í veg fyrir framsal aflaheimilda og veðsetningu sem ýtt hefur undir eignarréttarkröfu á auðlindinni.

Landsfundurinn ályktar að innlend fiskvinnsla skuli hafa forgang á vinnslu afla, veiddum á Íslandsmiðum. Ennfremur skal fylgja verði þeirri meginreglu að auðlindir sjávar verði nýttar með sjálfbærum hætti.

Landsfundurinn telur að í nýjum fiskveiðistjórnunarlögum verði að líta til samfélagslegra sjónarmiða samhliða arðsemiskröfu greinarinnar. Brýnt er að sjávarbyggðir landsins geti aftur orðið sjálfbærar og njóti nálægðar við gjöful fiskimið og þess mannauðs og fjárfestinga sem þar hafa byggst upp.

Landsfundurinn hvetur þingmenn og ráðherra flokksins til að standa þétt saman í þeirri baráttu sem framundan er við þrönga sérhagsmunagæslu og varðstöðu við núverandi fiskveiðilöggjöf."