Starfshópur um fjárhagsleg málefni þjóðkirkjunnar leggur til að þjóðkirkjan og innanríkisráðuneytið semji um hækkun sóknargjalda í áföngum á næstu árum. Þetta kemur fram á vef innanríkisráðuneytisins.

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra skipaði starfshópinn í desember 2013 og hafði hópurinn það verkefni að endurskoða fjárhagsleg samskipti ríkis og kirkju.

Starfshópurinn telur að það fyrirkomulag sem kveðið er á um í gildandi lögum um sóknargjöld hafi staðist tímans tönn.

Hins vegar telur hópurinn að langt hafi verið gengið í tímabundnum skerðingum á sóknargjöldum með bráðabirgðaákvæðum við lögin. Það hafi haft alvarlegar afleiðingar fyrir rekstur og fjármál sókna landsins.

Með þessum aðgerðum telur starfshópurinn að söfnuðir þjóðkirkjunnar yrði jafnsettir hvað niðurskurð varðar og aðrar stofnanir innanríkisráðuneytisins. Frá hruni hafi niðurskurður á sóknargjöldum numið 25% umfram framlög til reksturs annarra stofnana ráðuneytisins.