*

miðvikudagur, 26. júní 2019
Innlent 9. desember 2018 12:01

Vilja í skjól fyrir verðbólgunni

Ásókn í bæði óverðtryggð lán og fasta vexti hefur aukist verulega á undanförnum misserum.

Ingvar Haraldsson
vb.is

Ásókn í bæði óverðtryggð lán og fasta vexti hefur aukist verulega á undanförnum misserum. Taka nýrra óverðtryggðra lána umfram uppgreiðslur hjá bönkunum hefur vaxið um 280% á fyrstu tíu mánuðum ársins miðað við sama tímabil fyrir ári. Þá hafa ný íbúðalán með óverðtryggðum föstum vöxtum numið 31,8 milljörðum króna fyrstu tíu mánuði ársins miðað við um 6,7 milljarða króna á sama tímabili í fyrra, sem samsvarar 370% vexti milli ára. Að sama skapi hefur dregið úr nýjum verðtryggðum lánum að frádregnum uppgreiðslum hjá bönkunum um 36% á fyrstu tíu mánuðum ársins.

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir sennilegt að aukin sókn í bæði óverðtryggð lán og lán með föstum vöxtum tengist væntingum um hækkandi verðbólgu sem í kjölfarið geti fylgt hækkandi vöxtum íbúðalána. „Fyrir þá sem hafa verið að taka lán, sérstaklega síðustu vikur, hefur verið freistandi að ná að festa þá vexti sem hafa verið í boði undanfarið. Það má segja með  tilliti  til verðbólguvæntinga og væntinga um vaxtastig þá hafi kjörin verið eins hagstæð á óverðtryggðum lánum undanfarið og þau eru líkleg til að vera til skemmri tíma að minnsta kosti,“ segir Jón Bjarki.

Raunvextir sögulega lágir

Í nýjustu mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs er bent á að lægstu raunvextir óverðtryggðra íbúðalána hafi verið undir 2% mestallt þetta ár. Til samanburðar voru lægstu raunvextir óverðtryggðra íbúðalána að meðaltali 3,65% frá ársbyrjun 2010. Á síðasta ári voru lægstu óverðtryggðu raunvextirnir um 3,1% að jafnaði en að jafnaði um 4,6% árið 2016.

Gunnar Bjarni Viðarsson, sérfræðingur hjá greiningardeild Arion  banka, bendir á að lántakar kunni að hafa viljað festa vexti sína eftir að þeim bárust tilkynningar frá bönkunum um hækkandi vexti í haust. Þá sé einnig sennilegt að lántakendur séu að bregðast við óvissu sem er uppi í efnahagsmálum. Kjarasamningar losna um áramótin, þá hefur gengi krónunnar veikst á síðustu mánuðum og töluverð óvissa hefur verið uppi í ferðaþjónustunni, sér í lagi vegna stöðu Wow air.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: verðbólga íbúðalán
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is