Fjórir Samfylkingarþingmenn leggja til í frumvarpi, sem þeir hafa lagt fram á Alþingi, að hlutur kynjanna  verði jafnaður í stjórnunar- og áhrifastöðum fjármálafyrirtækja. „

Atburðir síðustu vikna hafa sýnt að þörf er á nýrri nálgun og nýrri hugsun í stjórnun fjármálafyrirtækja hér á landi," segir m.a. í skýringum frumvarpsins.

Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er Steinunn V. Óskarsdóttir. Meðflutningsmenn eru Guðbjartur Hannesson, Ásta R. Jóhannesdóttir og Ellert B. Schram.

Frumvarpið felur í sér breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki. Þar er meðal annars lagt til að við 51. grein laganna bætist eftirfarandi málsgrein: „Við kjör í stjórn skal tryggt að í stjórninni sitji sem næst jafnmargar konur og karlar."

Fjárhagslegur ávinningur af jöfnu hlutfalli kynjanna

Í skýringum frumvarpsins segir að nú þegar stærstu bankar landsins verði í aðaleigu ríkisins og hlutfall kynjanna í stjórn þeirra þurfi að vera sem jafnast og ekki minna en 40% í samræmi við jafnréttislög sé eðlilegt að þessi regla eigi við um öll fjármálafyrirtæki landsins.

„Er þetta ekki hvað síst mikilvægt nú eftir þær hræringar sem orðið hafa á fjármálamarkaði og þar sem búast má við auknu atvinnuleysi í þessum geira á næstu missirum," segir enn fremur í skýringum frumvarpsins.

Sjá nánar frumvarpið hér.