Japanska fyrirtækið SoftBank er sagt ætla að gera kauptilboð í hlutafé Uber á um 30% afslætti miðað við nýasta virðismat á fyrirtækinu að því er kemur fram í frétt The Wall Street Journal. Softbank er sagt leiða hóp fyrirtækja sem vilja kaupa að minnsta kosti 14% hlut starfsmanna og fjáresta í Uber.

Tilboðið gerir því ráð fyrir að virði Uber sé 48 milljarðar dala en áður hafði virði þess verið áætlað um 68 milljarðar en talið er að þónokkrir starfsmenn og fjárfestar hafi beðið um langa hríð eftir tækifæri til þess að selja hluti sína.

Uber hefur hingað til ekki verið skráð á markað en búist er við því að það muni gerast árið 2019. Fjárfestar sem lögðu fyrirtækinu til fjármagn á fyrstu árunum gætu hagnast um milljarða dala taki þeir tilboði fjárfestahópsins sem Softbank leiðir. Þar á meðal er Benchmark Capital sem lagði 27 milljónir dala til Uber á sínum tíma en hlutur þess er nú metinn á meira en 8 milljarða dala.