Icelandair stefnir á að ljúka samningum við fimmtán lánardróttna, Boeing og stjórnvöld fyrir lok mánaðarins, segir Eva Sóley Guðbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Icelandair, í viðtali við Fréttablaðið .

Lánardrottnarnir sem um ræðir eru leigusalar, færsluhirðir, lánveitendur og mótaðilar vegna olíuvarna. Viðræður við flesta þeirra eru langt á veg komnar.

„Samhliða því erum við að ræða við ríkið um lánaskilmála vegna lánalínu til þrautavara, sem félagið gæti nýtt ef rekstrarskilyrði flugfélaga verða mjög erfið til lengri tíma og fjármagnið úr hlutafjárútboðinu dugar ekki til,“ er haft eftir Evu.

Hún segir að Icelandair leiti ekki eftir skuldbreytingu við lánardrottna heldur sé félagið fremur að horfa til þess að styrkja lausafjárstöðu sína með því að aðlaga afborganir að áætluðu sjóðsstreymi á meðan félagið flýgur lítið.

Eva segir að viðræðurnar við lánardrottna séu flóknar þar sem Icelandair er lítið flugfélag í alþjóðlegu samhengi og lánardrottnar vilja ekki skapa fordæmi í sambærilegum viðræðum við önnur stærri flugfélög.

Icelandair sækist einnig eftir frekari bætum frá Boeing vegna kyrrsetninga MAX-vélanna en félögin eiga einnig í viðræðum um framtíðarafhendingar á þeim tíu flugvélum sem Icelandair á eftir að fá afhent. Flugfélagið hafði þegar fengið sex flugvélar afhentar.

„Við erum að meta næstu skref gagnvart Boeing og teljum mikilvægt að draga eins mikið og hægt er úr óvissu hvað þetta varðar í aðdraganda hlutafjárútboðsins,“ segir Eva sem útilokar ekki að félagið stefni Boeing vegna málsins.

Icelandair hefur haft framtíðarsamninga sem verja félagið fyrir 40-60% af áætlaðri olíunotkun í hverjum mánuði, í takt við áhættustefnu félagsins. Flugfélagið íhugar nú að loka vörnum fram í tímann, mögulega með afslætti eða færa þær lengra í tímann, þar sem olíuverð hefur lækkað verulega á síðustu mánuðum.