Samtök atvinnulífsins (SA) hafa kallað eftir því að stjórnvöld láti fara fram óháða rannsókn á kórónuveirufaraldrinum hér á landi. Í umsögn SA um frumvarp til laga um breytingu á sóttvarnarlögum kalla samtökin eftir því að rannsóknin nái yfir hvernig til hafi tekist um sóttvarnir, hverjar afleiðingarnar hafi verið á efnahag fólks og fyrirtækja, hverjar félagslegar og heilsufarslegar afleiðingar séu og hvernig takast eigi á við hliðstæða atburði sem síðar kunni að verða.

„Þessi rannsókn verður að eiga sér stað undir stjórn óháðra aðila sem geta kallað til sín sérfræðinga, bæði þá sem tekið hafa þátt í viðbrögðum við faraldrinum sem og aðra sem lagt geta mat á einstaka þætti," segir í umsögn SA. Með þessu sé ekki verið að leggja til að finna sökudólga eða leggja ábyrgð á einstaka aðila eða stofnanir, heldur einungis að tryggja faglega gagnrýni svo unnt sé að læra sem mest af faraldrinum til frambúðar.

Svara þurfi spurningum líkt og hvaða ákvæði í reglugerðum um takmörkun á samkomum skiluðu mestum árangri til að fækka smitum og hverjar höfðu síður áhrif. Eins hvort rétt sé að vinnustaðir lúti sömu reglum og almennar samkomur. Að auki bendir SA á að sóttkví sé nú beitt í tvær vikur sem geti verið mjög íþyngjandi. Koma þurfi fram hvernig áhættan breytist ef sóttkví takamrkast við eina viku eða 10 daga í stað 14 daga.

Samdrátturinn verði meiri hér en í samanburðarríkjum

„Í heildarúttekt á faraldrinum og afleiðingum hans þarf að fjalla um efnahagsleg áhrif heildstætt, sem og áhrif einstakra sóttvarnaaðgerða. Starfshópur er að störfum á vegum stjórnvalda sem metur efnahagsleg áhrif sóttvarna til skamms tíma og lýkur hópurinn störfum um áramótin. Ljóst er hins vegar að afleiðingar faraldursins og efnahagsleg áhrif munu ekki koma að fullu fram fyrr en eftir að viðspyrnan er hafin og faraldurinn hefur liðið undir lok. Við blasir við að efnahagssamdráttur hér á landi verður meiri en í samanburðarríkjunum og að hallarekstur hins opinbera verður mikill og viðvarandi með tilheyrandi skuldasöfnun ríkissjóðs. Framlögð áætlun ríkisfjármála gefur til kynna að hallarekstur áranna 2020-2025 muni nema yfir 1.000 milljörðum, sem svarar þremur milljónum króna á hvern íbúa, sökum veirufaraldursins og tengdra aðgerða. Slík þróun er ógn við lífskjör almennings, efnahagslegan stöðugleika og framtíðarfjármögnun velferðarkerfisins, þar á meðal heilbrigðiskerfisins," segir í umsögn SA.

Þá hafi atvinnuleysi aukist verulega í nær öllum atvinnugreinum í kjölfar faraldursins og sóttvarnaraðgerða honum tengdum. „Atvinnuleysi í hverjum mánuði er í sögulegum hæðum og eru tugir þúsunda án atvinnu sem stendur. Afleiðingar þess eru alvarlegar. Atvinnuleysið kostar mikla fjármuni og ber því að taka inn í heildarmat á áhrifum faraldursins og aðgerða honum tengdar. Þetta þarf að gera áður en ákvarðanir eru teknar en ekki einungis eftir á. Afleiðingar atvinnuleysis geta verið mun víðtækari fyrir einstaklinga sem fyrir því verða en aðeins fjárhagslegs eðlis."

Viðvörunarkerfið óskýrt

Bendir SA á að þegar tilkynnt hafi verið um takmarkanir á samkomum hafi verið vísað til ólíkra mælikvarða sem þar liggja að baki og gjarnan hafi verið vísað í stöðu Landspítalans. Þó hafi einungis legið fyrir gögn um fjölda innliggjandi vegna COVID-19 en ekki t.a.m. þróun á heildarfjölda sjúkrarýma og nýtingu þeirra. „Nefndir hafa verið tölulegir þættir sem rökstuðningur fyrir aðgerðum, svo sem fjöldi greindra smita (innan og utan sóttkvíar), smit á landamærum, smitstuðlar og fleira en erfitt hefur reynst að sjá samhengi milli mælikvarðanna og sóttvarnaraðgerða hverju sinni. Í ljósi þess að um miklar takmarkanir á athafnafrelsi einstaklinga er að ræða er í senn nauðsynleg og eðlileg krafa að slíkir mælikvarðar og samhengi þeirra liggi fyrir svo unnt sé að sýna óyggjandi fram á nauðsyn aðgerðanna."

Jafnframt koma samtökin inn á nýtt COVID-19 viðvörunarkerfi sóttvarnaryfirvalda, þar sem sóttvarnaraðgerðum er skipt í fjóra flokka; rautt, appelsínugult, gult og grátt. Segir SA kerfið ekki gefa neinar upplýsingar um undir hvaða kringumstæðum mismunandi sóttvarnaraðgerðir kunni að vera beitt.

„Þann 14. apríl þegar smit voru um 56 (7 dagar á milljón íbúa) var tilkynnt um slökun á takmörkunum frá 4. maí og m.a. heimilaðar 50 manna samkomur. Nú hafa smit verið undir þeirri tölu frá 13. nóvember. Frá 12. nóvember til 11. desember greindust 100 smit utan sóttkvíar eða 3,3 á dag að meðaltali. Þrátt fyrir þetta hafa litlar tilslakanir verið gerðar og það er ekki augljóst hvað þurfi til að rýmka heimildir. Nú er Covid-19 viðvörunarkerfið rautt um land allt og virðist eiga að vera það a.m.k. til 12. janúar 2021. Miðað við stöðu faraldursins nú er ekki auðvelt að sjá fyrir sér hvernig aðstæður þurfa að vera til að viðvörunarkerfið verði appelsínugult, gult eða grátt," segir í umsögninni.

Gagnsæi þurfi að ríkja um aðferðafræði, gögn og forsendur sem liggi að baki líkönum sem notuð eru til að taka ákvarðanir svo opin og gagnrýnin umræða geti átt sér stað um gildi þeirra. „Sem dæmi má nefna líkön tengd svonefndum smitstuðli, sem meðal annars er nefndur í minnisblaði sóttvarnarlæknis sem þáttur sem leggja má til grundvallar aðgerða. Spár um þróun smitstuðulsins bera með sér forsendur um mannlega hegðun í framtíð og eru þar af leiðandi mikilli óvissu háðar eins og sveiflukenndar niðurstöður og breitt óvissubil niðurstaðna líkansins bera með sér. Huga þarf einnig að marktækni mælikvarðans á hverjum tíma, sérstaklega í samfélagi þar sem smitin eru fá að tölu og íbúarnir dreifðir."

Fleiri ráðherrar komi að ákvörðunum

Bendir SA á að nauðsynlegt sé að ákvarðanir um aðgerðir, sem geti haft verulega íþyngjandi áhrif á daglegt líf borgaranna, séu byggðar á traustum vísindalegum og lagalegum grunni og að um þær ríki skilningur og samstaða. Telja samtökin að skynsamlegt sé að bíða með breytingu á sóttvarnarlögum þar til faraldurinn sé yfirstaðinn og niðurstöður óháðu rannsóknarinnar, sem SA leggur til, liggi fyrir.

Þá segir SA mikilvægt að ákvarðanir um viðamikla takmörkun á gangverki samfélagsins verði ekki teknar af heilbrigðisráðherra einum að fengnum tillögum sóttvarnarlæknis. „Eðlilegra væri að t.d. utanríkisráðherra og dómsmálaráðherra kæmu að ákvörðunum um takmörkun farar um landamæri Íslands. Ekki er eðlilegt að ákvarðanir um takmörkun skólastarfs og íþrótta séu teknar án formlegrar aðkomu mennta- og menningarmálaráðherra. Sömuleiðis að almennar hömlur á samkomum séu teknar með aðkomu dómsmálaráðherra. Aðgerðir sem takmarka atvinnustarfsemi ættu að vera með aðkomu fjármála- og efnahagsráðherra og eftir atvikum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Einnig hlýtur að koma til skoðunar hvort mjög víðtækar og íþyngjandi aðgerðir eins og útgöngubann, almenn stöðvun atvinnurekstrar og lokun skóla ættu að þurfa staðfestingu Alþingis."