Slitastjórn VBS krefur Jón Þórisson, fyrrverandi forstjóra VBS Fjárfestingarbanka, um greiðslu 123 milljóna króna greiðslu vegna kúluláns sem hann fékk hjá bankanum til kaupa á hlutabréfum hans í byrjun sumars 2007. Slitastjórnin vill sömuleiðis rifta lengingu á gjalddaga á láninu í nóvember árið 2008. Lánið var upphaflega á gjalddaga í maí árið 2009. Þegar harðna tók í ári á fjármálamörkuðum færðu Jón og fleiri stjórnendur VBS gjalddaga lána sem þeir fengu hjá bankanum fram til ársins 2017.

Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Lánið sem Jón og aðrir háttsettir starfsmenn fjárfestingarbankans fengu á sínum tíma voru á hagstæðum kjörum auk þess sem lántökugjald var látið niður falla. Samkvæmt kröfu slitastjórnar um endurgreiðslu lánsins eru hins vegar talsvert verri kjör eða á bilinu 4,95 til 19,48% vextir ofan á dráttarvexti.

Á 900 milljónir upp í 48 milljarða kröfur

Slitastjórn VBS telur að forstjóri bankans hafi átt að vita af því þegar lengt var í lánum að fjárhagsstaða bankans væri orðin bág ef ekki ógjaldfær í byrjun sama árs. Bankinn kom illa undan bankahruninu haustið 2008 og varð ríkið að koma honum til hjálpar á vordögum 2009. VBS, sem var ötull lánveitandi á byggingamarkaði, fór í þrot í mars árið 2010 og var bráðabirgðastjórn þá skipuð yfir bankann. Hann hafði þá aldrei náð að greiða svo mikið sem eina afborgun af því láni sem ríkið veitti honum.

Lýstar kröfur í þrotabú VBS námu 48 milljörðum króna. Þar af voru sértöku- og veðsettar kröfur um 33 milljarðar króna. Almennar kröfur námu 14 milljörðum króna. Óveðsettar eignir í þrotabúinu námu hins vegar um 900 milljónum króna.