Takmarka þarf útflæði á krónueignum til að hamla neikvæðum sveifum á hagkerfið, að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) sem mælir m.a. með því að útgönguskattur verði lagður á þær krónur sem eftir verða árið 2016. Sama ár sér AGS fyrir sér að hægt verði að hleypa út öllum lausum krónum í eigu erlendra aðila og gjaldeyrisútboðum verði viðhaldið til ársloka 2016. AGS áætlar jafnframt að ríkissjóður gefi tvívegis út langt skuldabréf í erlendri mynt samtals upp á 1,6 milljarða dala eða rúma 180 milljarða íslenskra króna árin 2014 og 2015 sem boðið verði í skiptum fyrir krónueignir erlendra aðila.

Greiningardeild Arion banka fjallar um tillögur AGS í Markaðspunktum sínum í dag.

Þar segir m.a. að AGS leggi til að árið 2017 verði  í skrefum hægt að létta höftum af krónueignum annarra aðila, þar á meðal þrotabúa bankanna, að því gefnu að fyrri skref hafi gengið vel fyrir sig, staða ríkissjóðs sé góð, aðgangur að alþjóðlegum fjármálamörkuðum sé til staðar og fjármálakerfið standi sterkt. Fullt afnám hafta er þó tæplega á dagskránni í fyrirsjáanlegri framtíð enda háð því að gjaldeyrisvaraforði sé til staðar.