Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, hefur stofnað styrktarreikning til söfnunar fyrir Samtök um betri spítala á betri stað. Samtökin leggjast gegn því að nýr Landspítali verði byggður við Hringbraut og telja að spara megi fé og tíma með því að reisa hann annarsstaðar.

Á Facebook síðu samtakanna kemur fram að söfnunin eigi einnig að vera til þess að stofna heimasíðu og halda fundi eða ráðstefnur um kosti og galla þess að reisa nýjan spítala á ólíkum stöðum. Þá stendur til að safna fyrir skoðanakönnun um þjóðarvilja til staðsetningar á nýjum Landspítala.

Forstöðumenn samtakanna segja á Facebook síðunni að „engin heildargreining á staðarvali hefur farið fram þar sem skoðaðir eru allir mögulegir kostir og atriði eins og áhrif á samgöngur, byggingarkostnað, ferðatíma starfsmanna og notenda þjónustunnar."