Samkeppnisforskot fyrirtækja sem eru í eigu banka byggist almennt ekki á viðskiptalegum forsendum heldur efnahagslegum styrkleika þeirra, segir í Falda aflinu, nýju riti Félags atvinnurekenda, þar sem hvatt er til þess að rekstri lítilla og meðalstórra fyrirtækja sé meiri gaumur gefinn.

Í ritinu er lagt til að sett verði strangara bann við eignarhaldi fjármálafyrirtækja í fyrirtækjum í óskyldum rekstri. Minnka þarf tímamörk eignarhalds niður í 6 mánuði. Sæki bankar um aukinn frest þurfi að birta nafn viðkomandi fyrirtækis sem fresturinn tekur til og eignarhluta fjármála-fyrirtækisins í fyrirtækinu.

Í ritinu segir að mörg fyrirtæki þurfi að standa í samkeppni við fyrirtæki sem njóti þeirrar vildarstöðu að vera í eigu fjármálafyrirtækja eða starfa í skjóli þeirra.