Hannes Smárason, forstjóri FL Group, segir í viðtali við Dow Jones fréttastofuna að móðurfélag American Airlines, AMR, sem FL Group keypti nýlega tæplega 6% hlut í, ætti að fara ákveðið (e. aggressive) inn í það samþjöppunarferli sem nú á sér stað á flugsamgöngumarkaði í Bandaríkjunum. Frá þessu er sagt í Viðskiptablaðinu í dag.

Hannes segist vilja sjá að eftir samþjöppunina standi tveir til þrír stórir aðilar eftir og að AMR geti verið einn þeirra.

FL Group keypti 5,98% hlut í AMR Corp. í desember fyrir um 400 milljónir Bandaríkjadala og er einn af stærstu hluthöfum fyrirtækisins með um 12,82 milljónir hluta.

Hannes segir að FL Group hafi ekki enn hafið formlegar viðræður við AMR, en að fyrirtækið hafi vissulega áhuga á hefja slíkar viðræður. Hann segir að fjárfestingin sé að mestu gerð á fjárhagslegum forsendum og að FL Group muni nálgast hana sem slíka. Hannes bætti jafnframt við að FL Group muni vinna með stjórnendum AMR og aðstoða við að ná settum markmiðum.

Með kaupunum í AMR steig FL Group sitt fyrsta skref inn á Bandaríkjamarkað og segir Hannes að vænta megi þess að FL Group fari út í fleiri fjárfestingar þar. Hannes segir þó að FL Group muni einbeita sér að AMR í augnablikinu og útilokar ekki að FL Group muni auka hlut sinn í fyrirtækinu. Hann segir að almennt kjósi FL Group að eiga nægilega stóran hlut til að ná fram áhrifum í fyrirtækinu, en gaf þó ekki upp hve stór hlutur það kæmi til með að vera í AMR, FL Group muni byrja með þennan 5,98% hlut og sjá svo til. Hannes segir að með samþjöppun á flugsamgöngumarkaði Bandaríkjanna megi ná fram miklum sparnaði og stórauknum vexti.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.