Jón Steinar Gunnlaugsson, sem nýlega lét af störfum sem hæstaréttardómari, sagði sig úr Sjálfstæðisflokknum árið 2004 til að sýna með táknrænum hætti að dómstörf hans yrðu ópólitísk, þó að hans sögn sé það reyndar nær óþekkt að flokkapólitík komi við sögu í dómsmálum.

Jón Steinar upplýsir þó í viðtali við Morgunblaðið í dag að nú hyggist hann ganga aftur í flokkinn, fyrst og fremst til að styðja við Brynjar Níelsson, hrl. og fyrrv. formann Lögmannafélags Íslands, sem gefið hefur kost á sér í 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í komandi prófkjöri. Jón Steinar segir Brynjar hafa tekið til máls um „mjög þarfa hluti“ og að hann sé maður réttaröryggis og borgaralegra gilda.

„Ég vil endilega að hann komist á þing og helst að hann verði innanríkisráðherra að kosningum loknum,“ segir Jón Steinar.

© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)