„Þetta tveggja ára átak snýst um að gera Eyjafjörð betur sýnilegan fyrir þann fjölda fyrirtækja sem eru í framkvæmdum, námu- og olíuvinnslu á norðurslóðum. Nú þegar eru um 30 stór verkefni í burðarliðnum eða komin á laggirnar á Grænlandi,“ segir Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar í samtali við Vikudag .

Meðal þáttakenda í verkefninu nú þegar eru Slippurinn, Rafeyri, Norlandair, Arctic Maintenance, Eimskip, Hafnarsamlag Norðurlands, Akureyrarbær og Sjúkrahúsið á Akureyri. „Samfélagið við fjörðinn er öflugt, innviðirnir eru þróaðir, alþjóðasamgöngur og fyrirtaks sjúkrastofnanir. Hefðir í ýmsum atvinnugreinum eru ríkar, þannig að ég tel að við séum vel í stakk búin til að þjónusta þessi umsvif. Þá er landfræðileg staða okkar þannig að við erum með nærtækasta þjónustukjarnann sem þörf er á fyrir þessa starfsemi,“ segir Þorvaldur Lúðvík.