Prófessor John M. Connor sagði á ráðstefnu Samkeppniseftirlitsins á Hótel Sögu í morgun að það ætti að verðlauna stjórnendur eða starfsmenn fyrirtækja sem upplýsa um lögbrot í atvinnulífinu. Einnig ætti að veita þeim sakaruppgjöf sem kjafta frá, til dæmis um ólögmætt verðsamráð. Þá væri alltaf hvati fyrir stjórnendur í einu fyrirtæki að kjafta frá, sérstaklega ef þeir fengju það á tilfinninguna að samráðið héldi ekki eða aukna líkur væru á að hinir myndu fyrst kjafta frá.

John M. Connor hefur lengi stundað rannsóknir á samvinnu stórfyrirtækja og verið stjórnvöldum til ráðgjafar um hvernig eigi að koma í veg fyrir að slík samvinna bitni á almenningi.

Mikilvæg löggjöf

Connor lagði auðvitað mikla áherslu á samkeppnislöggjöf í hverju landi og hvernig ætti að koma í veg fyrir að aðstæður sköpuðust þar sem stjórnendur fyrirtækja sammæltust um að keppa ekki, skiptingu markaða, samstarf í verðlagningu eða annað sem hefði skaðleg áhrif á samkeppni og neytendur.

Prófessorinn gekk svo langt að hvetja til þess að þeir sem upplýsi um brot, sem hægt sé að sanna, fengju hlut af sektargreiðslu sem fyrirtækin eða stjórnendum væri gert að greiða. Skipti engu máli hvort þeir sem upplýstu um brotin tengdust þeim eða ekki. Nefndi hann sem dæmi að ef einstaklingur kæmi upp um fyrirtæki sem greiddi ekki skatt af einhverju fengi 25% af ógreiddum skatti sem myndi innheimtast.

Verðlauna uppljóstrara

Sama ætti við um uppljóstrara innan fyrirtækja (whistleblowers) að mati Connors. Ef þeir kysu að kjafta frá ólöglegu athæfi myndu þeir ekki einungis sleppa við refsingu, ef þeir hefðu átt þátt í brotinu, heldur væri ráð að þeir fengju til dæmis 10% af sektargreiðslu ef það ætti við. Þetta myndi hvetja fólk til að "kjafta frá".