Sérstök eftirlitsnefnd mun fylgjast með því láni sem stjórnvöld á Spáni fá hjá Evrópusambandinu til að bæta eiginfjárhlutföll banka þar í landi. Stjórnvöld fóru bónleið til Brussel um helgina og óskuðu eftir því að fá allt að 100 milljarða evra að láni til að rétta hlut bankanna í kjölfar þess að virði eignasafna þeirra rýrnaði vegna verðhruns á fasteignamarkaði þar í landi.

Í netútgáfu breska viðskiptadagblaðsins Financial Times í dag er haft eftir Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, að eftirlitsnefndin muni svipa til fulltrúa hóps kröfuhafa gríska ríkisins sem komu að borðinu þegar Grikkklandi voru veitt neyðarlán til að sneiða hjá gjaldþroti landsins. Nefndin á að tryggja að Þjóðverjar fái eitthvað af lánum sínum til Spánverja fari landið á hliðina.

Hann telur hins vegar skárri kost ef Spánverjar fá lánað úr fjárstöðugleikasjóði evruríkjanna en úr neyðarbjörgunarsjóðinum þar sem lánsfé þaðan nýtur forgangs á aðra kröfuhafa.'

Blaðið hefur hins vegar eftir talsmanni Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, sem sögð er orðin langþreytt á sleitulausun skuldavanda evruríkjanna, að það sé ekki Þjóðverja að ákveða hvaða sjóður það er sem muni veita Spánverjum lánið.