Fyrrverandi varaforseti Úganda, Speciosa Kazibwe, hefur lagt til við þjóðþing landsins að leitt verði í lög að jarðarfarir skuli fara fram á laugardögum framvegis. Það telur Kazibwe vera nauðsynlegar ráðstafanir til að sporna gegn því að vinnuafl landsins taki sér frí frá vinnu til að mæta í jarðarfarir.

Hún benti einnig á að dánartíðni í Úganda er afar há, en 91.000 manns dóu þar úr alnæmi árið 2005.

Þetta kemur fram í frétt BBC.

Í frétt BBC um málið er rætt við þingmann í Úganda. Sá segir landa sína eyða of miklum tíma í útförum en bendir á að stjórnvöld verði að tryggja að líkhús séu til staðar áður en fólk verður skyldað til að geyma lík. Einnig benti hann á að tillagan tónar illa við þá múslímsku hefð að grafa menn innan sólarhrings frá dauða þeirra.