Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi viðskiptaráðherra, vill að ríkisstjórnin láti þá sem mestar eigi eignirnar greiða meira til samfélagsins en þeir þegar gera. Í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag sagði hann að í tíð fyrri ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafi verið eltur sá hugsanaháttur sem þekkist í Bandaríkjunum og sá 1% hluti þjóðarinnar sem mest hafði á milli handanna verið kominn með nær 20% af þjóðarauðnum árið 2008. Þetta sagði hann dæmi um aukna misskiptingu í samfélaginu. Hann benti á að í nýlegri skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sé mælt til þess að þeir sem mestar eigi eignirnar verði látnir leggja meira til samfélagsins en þeir þegar gera. Þá nefndi Árni Páll möguleikann á að láta auðlegðarskattinn fjármagna t.d. heilbrigðismál.

„Vill Framsókn ekki prófa að vera félagshyggjuflokkur?“ spurði Árni Páll.

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sagði mikilvægt að ræða þessa þætti. Hann benti hins vegar á að mikilvægt hafi verið að breyta álögum á sjávarútvegsfyrirtæki á þann veg að þau bugist ekki undan álaginu.

„Sjávarútvegur er fjölbreyttur. Það þýðir ekki að taka fjögur til fimm fyrirtæki og halda því fram að mikið eigi að leggja á útveginn,“ sagði hann á lagði áherslu á að þótt sumir geri það gott þá þýði það ekki að staðan sé slík hjá öllum.

Sigurður sagði jafnframt Framsóknarflokkinn vera félagshyggjuflokk. „Það er frábært að við höfum eina öfluga auðlindagrein sem getur staðið undir einu gjaldi og getur lagt mikið til ríkiskassans. En við skulum ekki ganga of langt í skattlagningu,“ sagði hann.