„Ég tel að úrskurður upplýsinganefndarinnar veki upp ýmsar spurningar um stjórnsýslulega framkvæmd og mun óska eftir því að sérstakur saksóknari sendi ráðuneytinu gögn málsins og greinargerð um vistun og skráningu gagna hjá embættinu,“ segir í skriflegu svari Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra við fyrirspurn Viðskiptablaðsins um viðbrögð ráðherrans við því að sérstakur saksóknari afhenti úrskurðarnefnd um upplýsingamál ekki umbeðin gögn.

Í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál frá 16. ágúst sl. Kemur fram að embætti sérstaks saksóknara varð ekki við beiðni nefndarinnar um afhendingu gagna, sem óskað var eftir bréflega 9. maí 2012.

Þegar beiðnin var ítrekuð 14. mars 2013 kom í ljós að umræddum gögnum hafði verið eytt og engin öryggisafrit til. Um var að ræða afrit af tölvupóstsamskiptum Ólafs Þ. Haukssonar við Jóhannes Kr. Kristjánsson, fréttamann Ríkissjónvarpsins, í desember 2011 sem Reimar Pétursson lögmaður hafði óskað eftir á grundvelli upplýsingalaga.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.