Utanríkisráðherra Þýskalands segir að Evrópa þurfi að ná valdi á landamærum sínum á nýjan leik. Ummælin koma í kjölfar frétta þess efnis að fölsuð sýrlensk vegabréf séu í höndum vígamanna Ríkis Íslams.

Yfir milljón flóttamenn hafa streymt til Þýskalands á þessu ári, en flestir þeirra eru að flýja stríð og ofbeldi í Mið-Austurlöndum. Eftir að hryðjuverkaárásir voru framdar í París í síðasta mánuði hafa sprottið upp áhyggjur af því að hryðjuverkamenn séu að lauma sér yfir til álfunnar meðal þessara flóttamanna.

Frank-Walter Steinmeier segir að margir vígamenn séu í raun íbúar Evrópulanda en bætir þó við: ,,Óháð þeirri staðreynd, þá er mikilvægt að við getum stýrt því betur hverjir geta komið til og farið frá Evrópu."

Fyrr í mánuðinum sagði Evrópusambandið að það myndi næstum því þrefalda útgjöld til landamæravörslu og stofna nýjan 1.500 manna viðbragðsher til að tækla flóttamannakrísuna.