David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, er bjartsýnn á að hægt verði að klára fríverslunarsamning milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna. Á fundi G20 ríkjanna sagðist Cameron skynja að svokallaður TTIP samningur sé það sem báðir aðilar vilji. Fjallað er um málið á vef BBC.

Viðræður hafa um nokkurt skeið staðið yfir milli Bandaríkjanna og Evrópusambandsins um TTIP milliríkjasamning (Transatlantic Trade and Investment Partnership). Um er að ræða gífurlega stóran og víðtækan samning sem auðveldar viðskipti með vöru og þjónustu milli svæðanna.

Samningurinn er umdeildur og hafa mótmæli sprottið upp gegn honum, ekki síst því sumir telja hann einungis þjóna hagsmunum stórfyrirtækja.

Cameron segir hins vegar að rök gegn samningnum séu veik og áhyggjur óþarfar. Það sé hagur beggja ríkja að klára samninginn.