Gagnrýni Höskuldar H. Ólafssonar, bankastjóra Arion banka, á kosningaloforð Framsóknarflokksins, bera keim af því að hann reynir að verja hagsmuni eigenda bankans, vogunarsjóði sem eiga miklar kröfur hér á landi. Þetta fullyrðir Róbert Guðfinnsson, athafnamaður sem hefur fjárfest í uppbyggingu á Siglufirði. Hann mælir með því að skipt verði um bankastjóra.

Róbert gagnrýnir Höskuld harðlega í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Hann rifjar m.a. upp að Höskuldur hafi verið forstjóri kreditkortafyrirtækisins Greiðslumiðlunar, síðar Valitor, þegar það braut samkeppnislög. Samkeppniseftirlitið sektaði fyrirtækið nýverið um hálfan milljarð vegna þessa. Róbert grípur til samlíkingar úr íþróttum í grein sinni.

Hann skrifar:

„Þegar íþróttamenn slasast í hópíþróttum þá fá þeir tækifæri sem lengi hafa setið á varamannabekknum. Oft lenda þjálfarar í erfiðleikum ef margir liðsmenn eru slasaðir á sama tíma. Þegar sú staða kemur upp þá fá hinir ólíklegustu leikmenn tækifæri til að sýna hvað í þeim býr. Stundum ná leikmenn að vinna sig inn í byrjunarliðið en oft enda þeir á bekknum aftur. [...] Flest lið í hópíþróttum vinna leiki sína á liðsheildinni. Það er því brýnt að slökum leikmönnum sé skipt út af ef liðið er ekki að standa sig. Sá tími virðist kominn hjá Arion banka. Stjórn bankans verður að líta yfir varamannabekkinn og gera breytingar áður en liðið fellur niður um deild.“

Hann heldur áfram:

„Í mínum gamla heimabæ, Siglufirði, er lítill sparisjóður. Ógæfa þessarar litlu fjármálastofnunar er að mikill meirihluti af stofnfé sjóðsins endaði inni í bókum Arion banka við uppstokkun á bankakerfinu. Banka sem er í óbeinni eigu erlendra vogunarsjóða. Lítill minnihluti stofnfjár var eftir í höndum einstaklinga. Undir stjórn Höskuldar var stefnan sett á sameiningu sparisjóðsins inn í Arion banka. Útsendarar voru sendir um sveitir norðan heiða til að fá stofnfjáreigendur til að framselja hlut sinn til Arion. Fullyrt var að bankinn væri að gera þeim greiða með að kaupa stofnfé þeirra á nafnvirði. Ef það gengi ekki eftir þá yrði lyklum sparisjóðsins skilað til Fjármálaeftirlitsins. Sameiningin hefur enn ekki gengið eftir og verður vonandi aldrei. [...] Það er umtalað hvað stjórnunarhættir Arion eru frábrugðnir almennri stjórnun í viðskiptalífinu. Vinnubrögð Arion einkennast af valdhroka sem ekki hjálpar upp á þau markmið sem sett voru um nýja ímynd fjármálakerfisins.“