*

laugardagur, 24. júlí 2021
Innlent 24. september 2017 11:17

Vill ráða fólk án háskólaprófs

Forstjóri McKinsey hefur sett sér það markmið að hitta tvo þjóðarleiðtoga eða forstjóra á dag.

Ingvar Haraldsson
Haraldur Guðjónsson

Dominic  Barton tók við starfi forstjóra McKinsey árið 2009. Hann segist vera á ferðalagi um 300 daga á ári. Hann hefur sett sér það markmið að hitta tvo þjóðarleiðtoga eða forstjóra á dag. „Ég hef ekki komið til New York, þar sem ég er með aðsetur nú, síðan 18. júní,” segir Barton í samtali við Viðskiptablaðið Barton segist engu síður leggja áherslu á að fá heimsóknir eða heimsækja fjölskyldumeðlimi sína reglulega. „Stundum líður mér eins og ég búi í ferðatösku. Þetta er ekki lífsstíl til að dást að.“

Barton hefur ráðist í nokkuð viðamiklar breytingar á starfsemi McKinsey. „Það var kominn tími til að við brögðuðum á eigin meðulum. Við vorum sífellt að segja öðrum að breytast en vorum sjálf afar íhaldssöm. Árið 2010 skoðuðum við að miðað við yfirvofandi breytingarnar í heiminum, yrðum við að bjóða upp á rétta þjónustu og vera nægjanlega sveigjanleg, og við settum af stað nokkrar tilraunir sem fólk var ekki mjög spennt fyrir til að byrja með. Heilt yfir hafa þær gengið upp. 30% af því sem við gerum í dag var ekki til staðar fyrir fimm árum. Við breyttum því einnig hvernig við fáum greitt. Nú byggjast greiðslurnar í mun meira mæli á því hvaða áhrif við höfum fremur en fastar þóknanir. Við erum einnig að ráða mun fjölbreyttari hóp en áður. Ráðningarnar voru mjög MBA miðaðar, en í dag leitum við að stærðfræðingum, eðlisfræðingum og sagnfræðingum og svo framvegis. Við bjóðum upp á fjölmörg námskeið til að þjálfa upp starfsfólk. Í ár er ég að reyna að fá ráðningateymið okkar til að ráða fimm manns sem eru ekki með háskólagráðu.“

Barton segir það hafa komið sér einna mest á óvart í sinni stjórnartíð að forstjórar geti aldrei verið með fulla stjórn á öllum málum. Þó að þeir líti út fyrir að vera mjög sjálfsöruggir, þá eru alltaf einhverjir eldar sem þarf að slökkva. Það er eitt að veita leiðtogum ráð, en annað að þurfa að gera hlutina sjálfur. Það geti reynt á og verið einmanalegt. „Erfiðustu ákvarðanirnar lenda á þínu borði því öðrum hefur ekki tekist að leysa vandamálin.” Þá nefnir hann einnig mikilvægi starfsfólksins. „Ef þú ætlar að koma einhverju í verk er mikill munur á fólki sem kemur hlutum á hreyfingu miðað við þá sem líta vel út á blaði eða koma vel fyrir sig orði.“

Möguleikar Íslands miklir

Dominic Barton, er einn efnahagsráðgjafa Justins Trudeau, forsætisráðherra Kanada. Hann sagði nýverið að Kanada væri smá viðskiptaþjóð sem þyrfti að taka meiri ábyrgð á eigin örlögum í kjölfar kjörs Donalds Trump sem Bandaríkjaforseta. Hann segir að gífurleg tækifæri séu fólgin í breytingum fyrir ríki eins og Ísland.

„Það er gífurlega erfitt að breyta kerfum og stofnunum í stærri ríkjum en ein af ástæðunum fyrir því að ég vildi koma til Íslands er að ég vil læra meira um landið því það er magnað hvað þið hafið gert. Ef ég horfi á hagvöxt, þá virðist árangur ykkar var mjög tilkomumikil. Ég held að það séu fjölmörg tækifæri fyrir sveigjanleg ríki sem eru reiðubúin að gera breytingar á atriðum á borð við menntakerfið og öryggisnetið og að tengja fyrirtæki og landið við heiminn.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.