„Hvort skiptir það meira máli að hlusta dægurtónlist eða bjarga mannslífum?“ spurði Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins í sérstökum umræðum um málefni RÚV á Alþingi í dag. Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, vakti máls á umræðunni og var Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra til andsvara. Nokkrar umræður spunnust um fjárveitingu hins opinbera til RÚV og menningarhlutverks útvarpsins.

Karl, sem jafnframt á sæti í fjárlaganefnd Alþingis, velti upp umfangi og kostnaði RÚV í samhengi við fjárskort Landspítalans. Hann benti á að RÚV haldi úti Rás 1 og Rás 2 auk sjónvarps. Skera megi niður með því að selja Rás 2 og stytta útsendingartíma og nýta sparnaðinn til tækjakaupa á Landspítalanum.

„Menning er nauðsynleg. Það þýðir hins vegar ekki að draga megi úr og spara. Einkaaðilar sinna hlutverki hennar mjög vel,“ sagði hann.