Endurskoðendur lífeyrissjóðanna virðast hvorki hafa talið það í sínum verkahring að fylgjast með mati á fjárfestingum lífeyrissjoðanna né gæðu þeirra á árunum fyrir hrun. Endurskoðendur benda sjálfir á að fram að falli bankanna hafi lítið tap orðið á eignum í safni sjóðanna og því hafi þeir ekki talið tilefni til þess.

Nefnd sem rannsakaði fjárfestingar lífeyrissjóðanna segir í skýrslu sinni að endurskoðendur eigi að hafa tök á því að skoða gæði fjárfestinga sjóðanna og eignasamsetningar þeirra. Hún segir mikilvægt að færa lög um lífeyrissjóði og ársreikninga til nútímahorfs og vill að tillit sé tekið til þess að lífeyrissjóðir falli undir hugtakið eining tengd almannahagsmunum.

Þá mælir nefndin með því að fjármálaráðuneytið gefi út sérstaka viðurkenningu til þeirra endurskoðenda sem teljast hæfir að mati Fjármálaeftirlitsins eftir viðeigandi námskeið til að endurskoða ársreikninga lífeyrissjóða og hafa með höndum innri endurskoðun þeirra.