Sérfræðingar sem fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur ráðið til að vinna að losun gjaldeyrishafta vinna eftir ákveðnum tímaplani. Planið skiptist niður í nokkra áfanga sem hver um sig geta varað í 6-8 vikur, að sögn Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra. Hann var spurður út í það í viðtali við fréttastofu 365 miðla hvenær gert sé ráð fyrir því að sérfræðingarnir ljúki störfum. Hann svaraði því til að hann bindi miklar vonir við að hreyfing komist á hlutina á þessu ári.

Eins og fram kom í gær hafa ýmsir sérfræðingar verið ráðnir til að vinna með íslenskum stjórnvöldum að afnámi gjaldeyrishafta. Samið var t.d. við við lögmannsstofuna Cleary Gottlieb Steen & Hamilton LLP og ráðgjafafyrirtækið White Oak Advisory LLP. Lee Bucheit mun stýra vinnu lögmannsstofunnar í verkefninu en hann var formaður íslensku samninganefndarinnar í Icesave-málinu. Þá mun Anne Krueger, prófessor í hagfræði við John Hopkins University og fyrrverandi aðstoðarframkvæmdastjóri AGS veita íslenskum stjórnvöldum ráðgjöf, einkum er snýr að þjóðhagslegum skilyrðum við losun hafta og veitingu undanþága. Fjórir sérfræðingar vinna með ráðgjöfunum. Það eru þeir Benedikt Gíslason, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, Freyr Hermannsson, forstöðumaður fjárstýringar Seðlabanka Íslands, Eiríkur Svavarsson, hæstaréttarlögmaður og Glenn Victor Kim, fjármálaráðgjafi hjá LJ Capital, sem starfaði áður hjá bandaríska fjárfestingabankanum Lehman Brothers.