James Bullard, bankastjóri seðlabankans í St. Louis í Bandaríkjunum, segir að kominn sé tími á vaxtahækkun þar í landi og að þeir sem taki vaxtaákvarðanir eigi ekki að bregðast við sveiflum á markaði.

Í síðustu viku ákvað bandaríski seðlabankinn að halda vöxtum óbreyttum, en óeining var um þá ákvörðun innan bankastjórnarinnar. Bullard hefur ekki atkvæðisrétt í peningastefnunefnd bankans, en hann segir í samtali við CNBC að hann hefði greitt atkvæði gegn óbreyttum vöxtum hefði hann haft möguleika til þess. Jeffrey Lacker, bankastjóri seðlabankans í Richmond, greiddi atkvæði gegn ákvörðun meirihlutans.

Bullard segir að mjög sterk rök hnígi að vaxtahækkun. Öll markmið sem peningastefnunefndin hafi sett sér hvað varðar hagvísa hafi náðst og að ekki sé ástæða til að bíða lengur.