Samtök atvinnulífsins leggja til að sett verði lög um afnám gjaldeyrishafta sem komi til framkvæmda í ársbyrjun 2013. Þau feli í sér heimildir til kaupa innlendra aðila á aflandskrónum, útgáfu ríkisins á evruskuldabréfum í skiptum fyrir ríkistryggð skuldabréf í eigu erlendra aðila, heimildir banka til útgáfu evruskuldabréfa í skiptum fyrir innstæður í bönkunum, útgönguskatt og mótvægisaðgerðir.

Þetta sagði Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsins (SA) á aðalfundi SA sem nú stendur yfir.

Vilmundur vék í löngu máli að gjaldeyrishöftunum og sagði að áður en höftin yrðu afnumin þurfi viðskipti með innilokaðar krónueignir að vera að mestu afstaðin. Það dragi verulega úr þrýstingi til lækkunar gengis krónunnar.

Tillögur SA fela í sér eftirfarandi. Í fyrsta lagi verði innlendum eigendum eigna í erlendum gjaldmiðlum heimilað að kaupa krónueignir erlendra aðila. Viðskiptin fari fram á skráðu gengi Seðlabankans með afslætti sem getur numið hlutfallslegum mun á skráðu gengi og aflandsgengi.

Í öðru lagi gefi ríkissjóður út skuldabréf í erlendum gjaldmiðlum til 10 – 20 ára og bjóði erlendum eigendum ríkisskuldabréfa í krónum. Íslensku ríkisskuldabréfin verði keypt með fyrrgreindum afslætti.

Í þriðja lagi verði bönkunum heimilt að breyta innstæðum erlendra aðila í bundnar innstæður í erlendum gjaldmiðlum til 5 – 10 ára eða í skuldabréf í erlendum gjaldmiðlum til sambærilegs tíma með tilteknum afslætti af krónuinnstæðunum. Öll viðskipti undir þessum þremur liðum verði skattlögð með 2% - 5% veltuskatti.

Í fjórða lagi verði leitað samninga við slitastjórnir um að bú gömlu bankanna selji 75% af eignarhlutum sínum í nýju bönkunum gegn greiðslu í erlendum gjaldmiðlum. Í fimmta lagi verði lagður á tímabundinn útgönguskattur á gjaldeyriskaup erlendra eigenda ríkistryggðra skuldabréfa og innstæðna þegar gjaldeyrisviðskipti verða frjáls. Þessi skattur nemi að minnsta kosti hlutfallslegum mun á skráðu gengi krónunnar og aflandsgengi hennar. Hversu hár skatturinn þarf að vera og í hve langan tíma hann gildir fer eftir því hvernig tekst til að ná jafnvægi á gjaldeyrismarkaði. Takist vel til er skatturinn óþarfur með öllu.

Í ræðu Vilmundar kom fram að loks yrði lagt til að skuldug heimili verði varin gegn hækkun á greiðslum verðbóta af verðtryggðum lánum með vaxtabótum sem fjármagnaðar verða með fyrrgreindum veltuskatti. Vaxtabæturnar verði ákveðnar á grundvelli tekna og nettóeigna. Þau heimili sem verst eru sett gætu fengið endurgreidda að fullu hækkun á greiðslum verðbóta og vaxta umfram tiltekna viðmiðun.

Þá sagði Vilmundur að lykilforsenda fyrir trúverðugri áætlun um afnám gjaldeyrishafta sé að fylgja stífri, tímasettri áætlun þar sem tekin er áhætta á gengislækkun.

„Væntingar erlendra krónueigenda um gengislækkun og þar með að eignir þeirra rýrni í erlendum gjaldmiðli eru meginhvati þess að þeir vilji selja þær tiltölulega hratt með afslætti,“ sagði Vilmundur.

„Því meira sem menn búast við að krónan falli þeim mun auðveldara og ódýrara verður að losa þessar eignir. Lækkun gengisins eykur verðbólgu og rýrir kaupmátt en það verður að bera saman við tjón sem höftin valda og kostnað þjóðarbúsins við að greiða erlendum aðilum út krónueignir sínar á hærra gengi en ella. Gengi krónunnar mun líklega rétta af á skömmum tíma eftir fall við afnám haftanna því þegar innlendar krónueignir erlendra aðila hafa verið seldar mun gengi krónunnar einkum ráðast af verðmæti inn- og útflutnings og fjármagnshreyfingum.“