Sem kunnugt er hafa viðskiptabankarnir ýmist tekið yfir einstaka eignarhluta í fyrirtækjum eða þá tekið yfir fyrirtækin í heilu lagi og rekið þau áfram.

Blaðamaður spyr Vilmund Jósefsson, formanna Samtaka atvinnulífsins (SA), hvort það sé orðin lenska að leyfa fyrirtækjum ekki að fara í þrot heldur að reka þau undir hatti bankanna.

Í Viðskiptablaðinu er að finna ítarlegt viðtal við Vilmund. Þar fer Vilmundur yfir samskiptin við ríkisstjórnina, stöðu SA í dag, deilurnar um ESB umsókn og fleira. Eftirfarandi kafli rataði ekki í prentútgáfu blaðsins og verður því birtur hér.

Vilmundur svarar því til að hingað til hafi fyrirtæki mátt fara í þrot og það sé enginn skortur á því. Hins vegar megi staldra við þegar bankarnir taki yfir fyrirtæki, afskrifi skuldir og hleypi sömu stjórnendum aftur að kjötkötlunum.

„Það er stefna sem mér hugnast ekki og það hlýtur að skekkja samkeppni innan greinarinnar þar sem þessi fyrirtæki eru. Hins vegar ætla ég ekki að setja mig í dómarasæti um það hverjir megi eða megi ekki reka fyrirtæki. Það er annarra að ákveða þan en hins vegar vantar einhverjar meginsiðareglur um þessi uppgjör,“ segir Vilmundur.

En er eðlilegt að bankarnir, sérstaklega þeir sem eru í ríkiseigu, séu að taka yfir fyrirtæki og reka þau áfram?

„Það eru tvær hliðar á þessu,“ segir Vilmundur.

„Auðvitað er eðlilegt að banki reyni að búa til eins mikil verðmæti og hægt er úr fyrirtæki sem hann hefur tekið yfir. Hins vegar verða menn að gæta þess að þessi fyrirtæki nái ekki yfirburðarstöðu á markaði í skjóli þess að vera í eigu banka. Það hefur haft skaðleg áhrif. Það er víða verið að skafa skuldir af fyrirtækjum og jafnvel það mikið að forstjórar fyrirtækjanna tilkynna rekstrarhagnað eftir árið sem kemur til vegna afskrifta skulda. Maður spyr sig óneitanlega þegar verið er að skafa miklar skuldir af fyrirtækjum hvort að ekki sé rétt að  eigendur þeirra missi þá hlutfallslega af sínum eignum í fyrirtækinu. En álitaefnin eru svo mörg að það er ekki nein ein stefna sem á að ríkja í því.“

Vilmundur minnir þó á að ekki verði komist hjá því að afskrifa jafnvel töluverðar upphæðir og það í öllum greinum. Það sé ein forsenda þess að góð rekstrarfyrirtæki getið haldið áfram starfsemi.