Áætlað er að vindorkugarður Landsvirkjunar við Búrfell muni kosta rúma 36 milljarða króna. Fram kemur í Fréttablaðinu í dag að Landsvirkjun hafi lagt fram tillögu að matsáætlun fyrir vindorkugarðinn, sem kallaður er  Búrfellslundur, á fimmtudag. Áform eru uppi um að reisa allt að 80 vindmyllur á Hafinu svokallaða við Búrfell. Nú þegar standa þar tvær vindmyllur.

Fram kemur í umfjöllun blaðsins um vindmylluverkefnið að við útreikninga kostnaðarins var miðað við meðalkostnað áþekkra framkvæmda í Evrópu á hvert megavatt sem framleitt er. Efri mörk slíkra útreikninga eru um 40 milljarðar króna eða 350 milljónir dala.