Staða vinnuafls á íslenskum vinnumarkaði hefur batnað nokkuð frá árinu áður, að því er kemur fram í vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands fyrir fjórða ársfjórðung 2021. Það megi t.d. sjá á því að hlutfall starfandi hafi hækkað og atvinnuleysi minnkað en um leið sjáist enn töluverð fjarvera frá vinnu.

„Hlutfall mannfjölda 16 til 74 ára á vinnumarkaði, eða atvinnuþátttaka, mældist 78,6% á fjórða ársfjórðungi 2021 sem er aukning um 2,5 prósentustig frá sama ársfjórðungi 2020. Fjöldi starfandi á fjórða ársfjórðungi 2021 var 200.500 manns og var hlutfall starfandi af mannfjölda 75,1%. Frá fjórða ársfjórðungi 2020 til fjórða ársfjórðungs 2021 fjölgaði starfandi fólki um 16.100 manns og hlutfall þess af mannfjölda hækkaði um 4,8 prósentustig. Hlutfall starfandi kvenna var 72,1 % og starfandi karla 77,9%. Starfandi konum fjölgaði um 7.200 og körlum um 8.900. Hlutfall starfandi fólks á höfuðborgarsvæðinu var 75,8% og utan höfuðborgarsvæðis 73,8%.

Til samanburðar voru 184.400 starfandi á fjórða ársfjórðungi 2020 og hlutfall af mannfjölda 70,3%. Hlutfall starfandi kvenna var þá 67,7% og starfandi karla 72,7%. Þá var hlutfall starfandi fólks á höfuðborgarsvæðinu 70,6% og 69,8% utan höfuðborgarsvæðisins," segir í frétt Hagstofu Íslands.

Fjölgun fæðinga og covid valdið aukinni fjarveru

Á fjórða ársfjórðungi 2020 hafi að jafnaði um 22.600 starfandi fólks verið fjarverandi frá vinnu alla viðmiðunarvikuna, eða 11,3% allra starfandi. Um hafi verið að ræða talsverða breytingu frá fjórða ársfjórðungi 2020 er 15.500 manns, eða 8,4%, voru fjarverandi frá vinnu. Hlutfallið sé það mesta sem mælst hefur á fjórða ársfjórðungi. Fjarvistir hafi einnig verið miklar á þriðja ársfjórðungi 2021 eða um 24%.

Helsta ástæða fjarvista sé að öllu jöfnu einhvers konar frí og veikindi fólks. Ætla megi að kórónuveirufaraldurinn hafi haft talsverð áhrif á fjarvistir hvort sem um sé að ræða veikindafjarvistir eða fjarvistir vegna breytinga í vinnuskipulagi. Þá hafi fjölgun fæðinga á Íslandi væntanlega einnig aukið fjarveru vegna fæðingarorlofs og feðraorlofs.