Sjö þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram þingsályktunartillögu um sölu ríkiseigna, lækkun skulda ríkissjóðs og fjárfestingu í innviðum. Óli Björn Kárason er flutningsmaður tillögunnar.

Í tillögunni felst að Alþingi álykti að fela fjármála- og efnahagsráðherra að skipa nefnd til að vinna að langtímaáætlun sem hefur ofangreinda þætti að markmiði. Nefndin verði skipuð þremur sérfræðingum, svo sem á sviði hagfræði og fjármála og lagt yrði fyrir nefndina að skila áfangaskýrslu eigi síðar en 30. apríl 2015 og lokaskýrslu 15. október sama ár.

Skuldsetning hefur lamandi áhrif

Í greinargerð með tillögunni segir að skuldsetning ríkissjóðs og gríðarlegar vaxtagreiðslur hafi lamandi áhrif á íslenskt efnahagslíf og hamli getu ríkisins til að veita þá þjónustu sem ætlast sé til. Möguleikar ríkisins til að lækka álögur á almenna launamenn og fyrirtæki séu jafnframt takmarkaðri en ella.

Því sé mikilvægt að fram fari hreinskiptin umræða um stöðu ríkissjóðs og hvernig hægt sé að lækka skuldir og draga úr lamandi vaxtagreiðslum. Ein forsenda þess að umræðan verði málefnaleg og án upphrópana sé að allar upplýsingar um eignir og skuldir ríkisins liggi fyrir.

Vaxtakostnaður 60% af tekjuskatti einstaklinga

Að lokum segir í greinargerðinni að lækkun skulda sé eitt brýnasta verkefni samtímans og forsenda sóknar til bættra lífskjara. Fjármagnskostnaður ríkisins sé þriðji stærsti útgjaldaliður ríkisins og samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015 verði vaxtakostnaður liðlega 60% af greiddum tekjuskatti einstaklinga. Með öðrum orðum renni sex krónur af hverjum tíu sem ríkið innheimtir í tekjuskatt af einstaklingum til greiðslu vaxta.