Frá því að gert var kostnaðarmat fyrir fyrirhugað háskólasjúkrahús í janúar 2007 hefur verkefnið verið endurskilgreint og liðir sem innifaldir höfðu verið í verðlaunatillögu C.F. Möller, svo sem barna- og unglingageðdeild (BUGL) og sjúkrahótel, verið teknir út og ýmsar breytingar verið gerðar aðrar.

Meðal annars hefur legudeildarálmum verið fækkað og hæð bætt ofan á þær. Kostnaður við verkefnið hefur lækkað talsvert af þeim sökum, en eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá sýndi kostnaðarmatið frá því í fyrra að heildarkostnaðurinn yrði 97 milljarðar króna miðað við verðlag 1. maí 2008.

Kostnaðaráætlun sem gerð var á vegum C.F. Möller-hópsins í febrúar sl. og birt var á vef verkefnisins að tilhlutan heilbrigðisráðuneytis fyrir fáeinum dögum, metur hins vegar kostnaðinn talsvert lægri.

Samkvæmt útreikningum Viðskiptablaðsins á nýja kostnaðarmatinu hleypur heildarkostnaðurinn, þ.e. byggingar, búnaður, bílastæði, varasjóður o.s.frv., á bilinu 86,4-89,5 milljarðar króna á verðlagi 1. maí sl.

Munurinn þar á milli felst í að gefnir eru tveir valkostir við framkvæmdina og er sá dýrari aðallega frábrugðinn að því leyti að gert er ráð fyrir lengri byggingartíma en í ódýrari kostinum.

Miðað við gefnar forsendur verkefnastjóra næmi talan hins vegar um 73-76 milljörðum króna á verðlagi 1. maí, en þá virðast undanskildir þættir eins og varasjóður, innri samgöngutæki o.fl., sem skýra ríflega 13 milljarða mun á útreikningum verkefnastjóra og Viðskiptablaðsins á kostnaði við sjúkrahúsið.

_______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .