Ísland er besta land í heimi fyrir vinnandi konur ef marka má glerþaksvísitölu breska tímaritsins The Economist sem birt var nú fyrir stuttu. Betur má þó ef duga skal að því er fram kemur í umfjöllun blaðsins um málið .

Vísitalan gefur 29 löndum einkunn í 10 mismunandi flokkum sem endurspegla eiga jafnan rétt kvenna á vinnumarkaði. Meðal þess sem litið er til eru menntunarstig kvenna, atvinnuþátttaka, launajöfnuður, kostnaður fyrir umönnun, fæðingarorlofsréttur beggja kynja, ásókn í viðskiptatengt nám, og hlutdeild í æðstu stöðum samfélagsins: í stjórnunarstöðum hjá og stjórnum fyrirtækja og á þingi.

Ísland var í þriðja sæti í fyrra, en tók fram úr frændum okkar í Noregi og Svíþjóð í ár, sem detta í annað og fjórða sæti, á meðan Finnland vermir það þriðja. Norðurlöndin eru sögð styðja einstaklega vel við nám kvenna og tryggja þeim sæti í stjórnum fyrirtækja, og er þar bent á 40% lágmarkshlutfall hvors kyns hér á landi, auk þess sem konur gegni 41,5% stjórnunarstaða hér á landi.

Á hinum enda skalans koma Suður-Kórea og Japan í tveimur neðstu sætunum, en hið fyrrnefnda hefur vermt botnsætið í heil átta ár samfleytt. Atvinnuþátttaka kvenna er þar aðeins 59%, kynbundinn launamunur er 35%, og aðeins einn af hverjum þrjátíu stjórnarmönnum eru konur.

Bent er á að konur standa undir aðeins 17% þingsæta sem eina hugsanlega skýringu, en sterk fylgni er milli hlutfalls kvenna af löggjafarvaldinu og réttinda til fæðingarorlofs.