*

laugardagur, 27. nóvember 2021
Innlent 19. mars 2019 10:34

Vinnutímamál orsök viðræðuslita

Formaður SGS segir deilur um vinnutíma, það er breytingar á neysluhléum, dagvinnutíma og yfirvinnu, ástæðu viðræðuslita.

Ritstjórn
Björn Snæbjörnsson formaður SGS og Einingar-Iðju tekur í höndina á Halldóri Benjamín Þorbergssyni framkvæmdastjóra SA við upphaf viðræðnanna sem nú hefur verið slitið.
Haraldur Guðjónsson

Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins segir ástæðu þess að sambandið sleit sig frá kjaraviðræðunum við Samtök atvinnulífsins vera deilur um vinnutíma að því er Morgunblaðið segir frá.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í gær sleit sambandið viðræðunum eftir að engar nýjar tillögur komu við úrlausn deilnanna frá Samtökum atvinnulífsins á fundi félaganna í gær. Björn segir þó að langan tíma taki að undirbúa verkfallsaðgerðir en verið sé að setja í startholurnar í þeim undirbúningi nú.

„Við erum að kalla saman aðgerðarhóp til að fara yfir skipulag og þess háttar. Við förum svo yfir þau mál með samninganefndinni á mánudag,“ segir Björn en hann vonast enn eftir nýju tilboði frá SA. „Verkefnið fer ekki frá okkur og við vonum að viðræður hefjist fljótlega aftur því við verðum að halda áfram.“

Formaður stéttarfélagsins Framsýnar á Húsavík, Aðalsteinn Baldursson segir að þó Starfsgreinasambandið hafi slitið viðræðunum hyggist félagið enn draga samningsumboð sitt til baka frá sambandinu.

„Ástæðan er einföld, við höfum lagst eindregið á móti hugmyndum SA um breytingar á neysluhléum starfsmanna, lengingu dagvinnutímabils og lækkun á yfirvinnuálagi,“ segir Aðalsteinn og segir eina af ástæðum þess að Efling, Verkalýðsfélag Akraness og Verkalýðs- og sjómannafélag Grindavíkur héldu sínu samningsumboði fyrir sjálfan sig hafi verið vinnutímamál.

„Við höfum ekki náð að fá aðra með okkur í þessa vegferð innan SGS. Við teljum okkur því ekki eiga samleið með þeim að klára þessa samninga. Við viljum ekki sjá þessa kjaraskerðingu fyrir okkar fólk.“