Vaxandi áhættusækni fjárfesta á allra síðustu vikum hefur valdið gengishækkunum ýmissa gjaldmiðla nýmarkaðs- og hávaxtaríkja.

Sumir hagfræðingar telja hins vegar að þessar vinsældir gætu orðið skammvinnar:Áhættufælni fjárfesta muni aukast á ný þegar fréttir berast af frekari skakkaföllum vegna lánsfjárkreppunnar á fjármálamörkuðum. Það myndi aftur gera það að verkum að gengi lágvaxtamynta á borð við japanska jenið og svissneska frankann hækkaði samfara því að fjárfestar losuðu stöðu sína í hávaxtamyntum.

Á það er bent í greiningu Dow Jones-fréttaveitunnar að viðvarandi hátt olíuverð á heimsmarkaði og fregnir af nýjum vandræðum á fjármálamörkuðum gætu hrundið af stað slíkri atburðarás.

Við þær aðstæður er ljóst að fjárfestar á gjaldeyrismörkuðum þyrftu að bregðast skjótt við til þess að lágmarka skaðann af áhættusömum fjárfestingum í gjaldmiðlum ríkja á borð við Ísland, Nýja-Sjáland, Suður-Afríku og Tyrkland.

Haft er eftir Robert Minikin, gjaldeyrissérfræðingi hjá Standard Chartered í London, að minnkandi áhættufælni fjárfesta sjáist glöggt þegar litið er til gengisþróunar suðurafríska randsins og tyrknesku lírunnar, en báðar myntirnar eru oftast flokkaðar í hóp með hávaxtagjaldmiðlum eins og íslensku krónunni.

Minikin bætir því hins vegar við að í tilfelli Tyrklands og Suður-Afríku muni pólitískt óvissuástand einnig hafa áhrif ef áhættufælni fjárfesta eykst á ný.