Á síðasta ári skilaði Vinstri hreyfingin - grænt framboð rekstrarafgangi sem nam 22.857.725 krónum. Þetta kemur fram í ársreikningi sem flokkurinn hefur skilað til Ríkisendurskoðunar í samræmi við lög um fjármál stjórnmálaflokka.

Námu tekjur flokksins 54 milljónum króna, en þar af voru framlög Alþingis rúmlega 40 milljónir. Einstaklingsframlög námu 9 milljónum og framlög sveitarfélaga námu tæpum 3,5 milljónum króna.

Aðhald á rekstri og niðurskurður

Rekstrargjöldin námu tæplega 31 milljón króna, en í fréttatilkynningu flokksins segir að skorið hafi verið niður í rekstri, starfsmannahaldi ásamt því að aðhald hafi verið á útgjöldum flokksins allt kjörtímabilið.

Jafnframt hafi eignir verið seldar. Gripið hafi verið til þessara aðgerða eftir að flokkurinn hafi glímt við þungan fjárhag og talsverðar skuldir í kjölfar alþingiskosninganna 2013.