Þá sem dreymir um frægð og ríkidæmi sem byggist á heimilisiðnaði í bílskúrnum geta styrkt sig í trúnni eftir að Bretanum Brian Bennet tókst nokkuð sem lyfjaiðnaðinum hafði ekki tekist fram að þessu. Bennet, sem er ellilífeyrisþegi, tókst að búa til krem sem ver fólk gegn bakteríusýkingunni Staphylococcus aureus sem leggst á um 100 þúsund manns árlega.

Á sjúkrahúsum hefur hingað til verið til staðar handáburður sem ver starfsfólk gegn Staphylococcus-sýkingunni en sú vörn hverfur við venjulegan handþvott. Krem Bennets veitir hins vegar vörn í marga klukkutíma og hefur verið talað um "ósýnilega hanskann" í því sambandi.

Frá því að greint var frá uppgötvuninni fyrir um tveimur vikum hafa fjölmiðlar í Bretlandi veitt málinu óskipta athygli, svo að Bennet þykir nóg um. Í samtali við tímaritið Newsweek segir Bennet að hann sé nánast að fara á límingunum vegna ágangs fjölmiðla en allir hafa þeir viljað fá söguna að baki uppgötvuninni.

Árið 2001 greindist Heather, kona Bennets, með húðbólgu (dermatitis) og niðurstaða lækna var sú að sjúkdómurinn væri ólæknanlegur. Bennet sem er fyrrum vöruflutningabílstjóri og féll í líffræði á sínum grunnskólaárum, sætti sig ekki við úrskurð læknisins og hóf rannsóknarstarfsemi í bílskúrnum heima.

Bennet byrjaði á því að kaupa eina tunnu af húðkremi og nokkur önnur vel þekkt krem t.d. Aloe Vera og svo var hafist handa við rannsóknir að hætti Thomas Alva Edison. Engin stórtæk blöndunarvél var til staðar en þess í stað rúlluðu Bennet og synir hans tunnunni með "töfrablöndunni" nokkrum sinnum upp og niður innkeyrsluna að bílskúrnum.

Þremur mánuðum síðar prófaði Bennet kremið á konu sinni með þeim árangri að einkenni húðbólgunnar hurfu á innan við viku - og létu ekki á sér bæra meir. Eftir að hafa gefið vinum og kunningjum með ýmis húðvandamál prufur lofaði árngurinn góðu og þess var farið á leit við konunglega sjúkrahúsið í Birmingham að gerðar yrðu rannsóknir á kreminu. Klínískar rannsóknir gengu framar vonum og stendur til að prófa kremið á nýrnaveiku fólki sem er sérstaklega næmt fyrir sýkingu af völdum Staphylococcus.

Bennet hefur í dag fengið einkaleyfi á uppfinningu sinni sem virðist vera líkleg til þess að lækna fleiri illviðráðanlega sjúkdóma sbr. psoriasis og unglingabólur. Lyfjafyrirtækin hafa einnig tekið við sér og bjóðast til að fjármagna frekari rannsóknir. Í öllum æsingnum hefur Bennet hins vegar haldið ró sinni. "Þetta eru engin geimvísindi, ég var bara heppinn."