Virði íslenska líftæknilyfjafyrirtækisins Alvotech gæti allt að fjórfaldast á næstu þremur árum gangi áætlanir og forsendur í fjárfestakynningu félagsins upp.

Tilkynnt var í morgun að Alvotech hyggur á skráningu í bandarísku kauphöll Nasdaq, ásamt tvískráningu á First North-markaðinn á Íslandi , í gegnum samruna við sérhæfða yfirtökufélagið Oaktree Acquisition Corp. II. Viðskiptin munu skila Alvotech um 450 milljónum Bandaríkjadala, eða tæpum 60 milljörðum króna, í auknu fjármagni.

Sjá einnig: Alvotech sækir 60 milljarða og fer á markað

Fram kom að heildarvirði (e. enterprise value) sameinaðs fyrirtækis í viðskiptunum er áætlað um 2,25 milljarðar dala, eða um 295 milljarðar króna.

Í fjárfestakynningu vegna skráningarinnar er gert ráð fyrir að heildarvirði Alvotech verði á bilinu 7,2-9,6 milljarðar dala í árslok 2024. Nánar tiltekið þá er spáð því að virði Alvotech verði þrefalt eða fjórfalt meira eftir þrjú ár, að gefnum forsendum um að tekjur verði yfir 800 milljónir dala árið 2025, aðlöguð EBITDA framlegð verði yfir 60% og að margfaldarinn í verðmatinu verði 15-20 föld EBITDA ársins 2025.

Sé þessi fjárhæð núvirt með tillit til 20% ávöxtunarkröfu þá er áætlað í fjárfestakynningunni að núverandi heildarvirði Alvotech sé á bilinu 4,2-5,6 milljarðar dala. Miðað við þessa sviðsmynd er heildarvirði Alvotech 83%-143% hærra heldur en í fjármögnunarlotunni fyrir skráningu félagsins á markað.

Alvotech - sviðsmynd um heildarvirði
Alvotech - sviðsmynd um heildarvirði

Sviðsmynd af heildarvirði Alvotech sem sett er fram í fjárfestakynningu félagsins.

Dómsmál tefur markaðsleyfi AVT02

Ýmsir fyrirvarar eru birtir í fjárfestakynningunni líkt og venjan er. Þar er meðal annars bent á að Alvotech hafi tapað verulegum fjárhæðum á síðustu árum og gerir ráð fyrir áframhaldandi tapi á næstu misserum, þar sem félagið er enn ekki farið að skila tekjum af vörusölu.

Eitt þeirra lyfja sem Alvotech er að þróa er AVT02, sem þróað er sem hliðstæða líftæknilyfsins Humira® en Humira hefur á síðustu árum verið tekjuhæsta lyf heims með árlega sölu sem jafngilti 2.600 milljörðum króna á árinu 2020. Megnið af sölu Humira á sér stað í Bandaríkjunum en þar er lyfjafyrirtækið AbbVie eitt um söluna.

AbbVie stefndi Alvotech fyrr á árinu fyrir meint brot á 62 einkaleyfum tengdum Humira. Nýverið skuldbatt Alvotech sig til að hefja ekki sölu lyfsins í Bandaríkjunum fyrr en niðurstaða fæst í málið, sem verður að líkindum í október árið 2022. Samhliða því var meintum einkaleyfabrotum sem tekist verður á um fækkað niður í tíu. Í millitíðinni vonast Alvotech til að félagið fái markaðsleyfi hjá FDA, Matvæla- og lyfjaeftirliti Bandaríkjanna, en lyf Alvotech er sterkara en líftæknihliðstæður samkeppnisaðilanna.

Lyf í þróun hjá Alvotech
Lyf í þróun hjá Alvotech

Lyf í þróun hjá Alvotech, meðferðarsvið og hliðstæðulyf þeirra ásamt tímaramma utan um klínískar rannsóknir.