*

sunnudagur, 18. ágúst 2019
Erlent 4. janúar 2019 15:29

Virði Apple fallið um andvirði Facebook

Heildarverðmæti Apple hefur lækkað um 60 billjónir króna síðan í október, en í gær nam lækkunin 10%.

Ritstjórn
Tim Cook forstjóri Apple sendi fjárfestum skilaboð í gær vegna minni sölu en vænt hafði verið.

Fyrir einungis þremur mánuðum síðan var Apple verðmætasta fyrirtæki heims eftir nær samfellda hækkun frá miðju ári 2016. Eftir lækkun gærdagsins er Alphabet, móðurfélag Google búið að ná þriðja sæti yfir verðmætasta fyrirtæki heims af Apple.

En síðan 3. október hefur heildarverðmæti Apple lækkað um 450 milljarða dala eða 37% að því er SWJ segir frá. Það samsvarar 52.925 milljörðum íslenskra króna, eða 52,9 billjónum króna. Til samanburðar má benda á að heildarandvirði Facebook nemur um 383,76 milljörðum dala, eða 45.134 milljörðum íslenskra króna að því er Business Insider bendir á.

Eftir 9,96% fall hlutabréfa félagsins í gær sem kom í kjölfar afkomuviðvörunar, stóð heildarmarkaðsvirði þess í 710,97 milljörðum dala, eða sem samsvarar 83.617 milljörðum, eða 83,6 billjónum, króna.

Greining Íslandsbanka bendir á að til samanburðar er landsframleiðsla Íslands um 3 billjónir króna. Einnig bendir bankinn á að þó tekjur af sölu mikilvægustu vöru fyrirtækisins, iPhone snjallsímans, hafi aukist um 18% á milli ára hafi salan einungis aukist um hálft prósent í magni.

Sölutölurnar voru þannig töluvert undir jafnvel lægstu væntingum, en stjórnendur félagsins segja mestu vonbrigðin vera léleg sala í Kína. Samhliða lækkun verðmætis Apple hefur verðmæti Amazon aukist um tæplega fjórðung og Microsoft hækkað í verði um 12%. Hins vegar hefur verðmæti Facebook lækkað um 29%.

Stikkorð: Microsoft Apple Facebook Amazon