Virðing hf. hefur nú lokið við endurfjármögnun á langtímalánum Sláturfélags Suðurlands. Að fjármögnun komu nokkrir öflugstu lífeyrissjóðir landsins auk Veðskuldabréfasjóðsins Virðingar. Nam lánsfjárhæðin alls um 1,6 milljarði króna til 25 ára, þar sem afborganir hafa verið aðlagaðar að greiðslugetu Sláturfélagsins til lengri tíma litið. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar nemur nú 41% og lauk verkefninu því með afar hagstæðri niðurstöðu fyrir bæði lánveitendur og Sláturfélagið, sem er eitt elsta starfandi fyrirtæki landsins, með um 400 starfsmenn.

Steinþór Skúlason, forstjóri SS segist meta mikils aðkomu Virðingar og lífeyrissjóðanna að þessu máli.  „Endurfjármögnun langtímaskulda félagsins sem nú er lokið hefur gríðarlega jákvæð áhrif á fjármagnsliði samstæðunnar auk þess sem árleg greiðslubyrði lána lækkar umtalsvert.  Sláturfélagið hefur nú náð fyrri styrk hvað eiginfjárhlutfall varðar og þá er lausafjárstaðan góð“.

Virðing hf. er löggilt verðbréfafyrirtæki sem leggur áherslu á þjónustu við fag- og stofnanafjárfesta.  Félagið er m.a í eigu íslenskra lífeyrissjóða og stéttarfélaga.  Frá upphafi hefur fyrirtækið sérhæft sig í miðlun fasteignatryggðra skuldabréfa og hefur félagið tekið þátt í fjölmörgum slíkum verkefnum á umliðnum árum.