Viðræður eru hafnar á milli Reykjavíkurborgar og Samson Properties um svonefndan Barónsreit á milli Hverfisgötu og Skúlagötu, nánar tiltekið frá Vitastíg að Fosshótel Barón og Barónsfjósi þar sem er verslunin 10-11. Ákvörðun um þetta var tekin á fundi stjórnar Skipulagssjóðs 21. september síðast liðinn en þá lágu fyrir tvö tilboð, annað frá Samson Properties en hitt frá Pétri Þór Sigurðssyni lögmanni. Eignirnar voru ekki auglýstar.

Að sögn Kristínar Einarsdóttur framkvæmdastjóra Skipulagssjóðs hefur lengi staðið til að selja eignirnar og margir hafa lýst áhuga á að kaupa. Raunar hafði verið tekin ákvörðun um að auglýsa nyrðri hluta reitsins, Skúlagötumegin, en "eins og málin standa núna eru ekki miklar líkur á að þetta verði auglýst," segir Kristín.

Húsnæðismál stúdenta við Háskóla Íslands eru að sögn Kristínar meginástæða þess að ákveðið var að ganga til viðræðna við Samson Properties. Hverfisgötumegin á Barónsreitnum, þar sem nú eru bílastæði, hafði verð gert ráð fyrir að byggðar yrðu námsmannaíbúðir í tveimur fjögurra og fimm hæða nýbyggingum. Skúlagötumegin er gert ráð fyrir að byggingar sem fyrir eru (númer 26, 28 og 30) verði rifnar og nýtt verslunar- og íbúðarhúsnæði reist með þremur fimmtán hæða turnum. Kristín segir að nú sé til skoðunar hvort skynsamlegra sé að líta á reitinn sem eina heild, jafnvel alveg upp að Laugavegi 77 þar sem Landsbankinn er til húsa.

Þar með yrðu námsmannaíbúðirnar í uppnámi, en svo vill til að Samson Properties á eignir nálægt námsmannaíbúðum sem þegar hafa verið reistar við Lindargötu. "Það væri miklu heppilegra að nýju íbúðirnar yrðu á sama svæði og þær sem fyrir eru," segir Kristín. "Það er ástæðan fyrir því að ákveðið var að ræða við þennan aðila."

Kristín segist hafa vonast til að hægt yrði að ganga frá málinu fyrir áramót en ólíklegt sé að það gangi eftir, enda ráðlegt að flýta sér hægt og vanda til verka.

Dagur B. Eggertsson, sem situr í stjórn Skipulagssjóðs, segist líta svo á að í samþykkt stjórnarinnar frá því í september hafi eingöngu falist ákvörðun um könnunarviðræður um hvaða hugmyndir Samson Properties hafi um uppbyggingu á reitnum, en ekki ákvörðun um að hætta við að auglýsa eignirnar við Skúlagötu. Veigamikil rök þurfi til að hverfa frá þeirri ákvörðun.

Fasteignasali sem Viðskiptablaðið ræddi við, en vildi ekki láta nafns síns getið, taldi óeðlilegt að selja reitinn án auglýsingar. Mjög óalgengt væri að þannig væri staðið að málum. Ljóst væri að þetta væri dýr reitur á góðum stað, en hafa bæri í huga að dýrt væri að rífa hús sem fyrir væru.

Sveinn Björnsson hjá Samson Properties vildi ekkert tjá sig um málið.