Visa Inc. undibýr nú skráningu félagsins á hlutabréfamarkað. Talið er að félagið kunni að afla allt að 17 milljarða bandaríkjadala í útboðinu.

Visa, sem er stærsta kreditkortafyrirtæki heims, áætlar að selja um 406 milljón hluti í fyrirtækinu fyrir 37 - 42 bandaríkjadali á hlut. Þá munu bankar eiga þess kost að selja allt að 40,6 milljón hluti í félaginu og er þannig áætlað að markaðsvirði skráningarinnar verði 18,8 milljarðar bandaríkjadala, eða sem nemur 1200 milljörðum króna.

Bloomberg fréttaveitan segir félagið ætla að gera betur en helsti samkeppnisaðilinn, MasterCard, sem hefur vaxið fimmfalt síðan félagið var skráð á hlutabréfamarkað í maí 2006.

Ef fer sem horfir verður þetta að mati Bloomberg næst stærsta frumútboð frá upphafi eða næst á eftir Industrial & Commercial Bank of China sem aflaði 22 milljarða dala í hlutafjárútboði árið 2006.

Fimmtán bankar munu taka þátt í skráningunni, þar á meðal JP Morgan, Goldman Sachs og Bank of America.

Félagið verður skráð í Kauphöllinni í New York undir merkinu V.