Vísitala framleiðsluverðs hækkaði um 11,5% frá fyrsta ársfjórðungi og er hún í 118,8 stigum, segir greiningardeild Landsbankans.

?Frá öðrum ársfjórðungi 2005 hefur vísitalan hækkað um 17,9%. Vísitalan hefur aldrei hækkað svo mikið milli ársfjórðunga, en mælingar á vísitölu framleiðsluverðs í núverandi formi hófust fyrir tæpum þremur árum," segir greiningardeildin.

Hún segir að vísitalan fyrir vörur framleiddar og seldar hérlendis hækkaði um 2,3% (0,9% vísitöluáhrif) frá fyrri ársfjórðungi en vísitalan fyrir útfluttar afurðir hækkaði um 17,1% (10,6%).

?Aðrar undirvísitölur þróuðust þannig að verðvísitala sjávarafurða hækkaði um 14,8% (5,9%) og verðvísitala annarrar iðnframleiðslu hækkaði um 9,3% (5,6%)," segir greiningardeildin.

Verðvísitala framleiðsluverðs segir til um þær verðbreytingar, sem innlendir aðilar fá fyrir framleiðslu sína.

?Þættir sem mest áhrif hafa á vísitöluna er markaðsverð sjávarafurða erlendis og gengi íslensku krónunnar. Hækkun vísitölunnar má að mestu leyti rekja til veikingar krónunnar á tímabilinu en gengi hennar var að meðaltali 17% lægra á öðrum ársfjórðungi þessa árs en á þeim fyrsta. Til samanburðar má nefna að vísitala neysluverðs hækkaði um 3,3% og launavísitala hækkaði um 1,6% á sama tímabili," segir greiningardeildin.