Morgunkorn Íslandsbanka segir þann hagvísi sem verði einna áhugaverðast á að líta af þeim sem birtir verða í vikunni sé vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu fyrir júlímánuð sem Þjóðskrá Íslands mun birta á morgun. Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði sjötta mánuðinn í röð í júlí síðastliðnum frá fyrri mánuði, eða um 0,5% að nafnvirði samkvæmt vísitölunni, og var gildi vísitölunnar svipað og það var í mars árið 2009. Hækkunin á milli mánaða má rekja til hækkun á verði íbúða í sérbýli sem hækkaði um 2,3% milli mánaða en á sama tíma lækkaði verð íbúða í fjölbýli lítillega, eða um 0,1%. Frá áramótum hefur vísitala íbúðaverðs hækkað um 6,3% að nafnverði en hækkunin nemur um 2,9% að raunvirði miðað við vísitölu neysluverðs án húsnæðis.