Hlutabréfavísitölur hækkuðu í helstu kauphöllum heimsins í gær og juku hækkanir á vonir manna um að niðursveiflan sem hófst í síðustu viku sé senn á enda. Hlutabréfavísitölur hækkuðu í Bandaríkjunum í krafti hækkana í Asíu og Evrópu. Hækkanirnar voru meðal annars knúnar áfram af fréttum af yfirtöku Citigroup á japanska fjármálafyrirtækinu Nikko Cordial og orðrómi um að einkafjárfestingarsjóður hygðist gera yfirtökutilboð í bifreiðaframleiðandann Chrysler.

Niðursveiflan á hlutabréfamörkuðum hófst í síðustu viku í kjölfar mikilla lækkana í kauphöllinni í Sjanghæ í Kína. Voru þær lækkanir meðal annars knúnar áfram vegna ummæla Wen Jiaboa forsætisráðherra um nauðsyn þess að stjórnvöld reyni að slá á þenslu í hagkerfinu. Þetta varð til þess að fjárfestar tóku að innleysa hagnað eftir miklar hækkanir á kínverska markaðinum og fylgt var í sömu fótspor á öðrum mörkuðum. Fjárfestar fóru úr hávaxtamyntum yfir í lágvaxtamyntir. Þetta varð meðal annars til þess að jenið styrktist og jók styrkingin áhyggjur af því að tekið væri að vinda ofan af vaxtamunarviðskiptum.