Landsframleiðsla síðasta árs var 1.142 milljarðar króna og jókst um 2,6% frá fyrra ári samkvæmt nýjum tölum Hagstofunnar. Vöxtur hagkerfisins hefur dregist töluvert saman frá fyrri árum en árið 2005 nam vöxturinn 7,2% og 7,6% árið 2004.

Áætlanir Hagstofunnar fyrir síðasta ár gera ráð fyrir að útflutningur hafi dregist saman um 5,6% á síðasta ári en að innflutningur hafi aukist mun meira eða um 8,8% sem leiðir til þess að viðskiptahalli síðasta árs er 303 milljarðar króna sem nemur samtals 26,5% af vergri landsframleiðslu og hefur viðskiptahallinn þá aldrei verið meiri í íslenskri hagsögu. Nóg um þótti mörgum samt á síðasta ári þegar viðskiptahallinn nam rúmlega 16% af vergri landsframleiðslu. Viðskiptahallinn veldur því að þjóðartekjur dragast saman um 1,7% samanborið við 8,15 vöxt árið áður.

Einkaneysla á síðasta ári nemur 60% af landsframleiðslu og hefur þetta hlutfall ekki verið hærra síðan árið 2000.Samneysla sem hlutfall af landsframleiðslu er óbreytt á milli ára og er 24,6%.

Landsframleiðslan á fjórða ársfjórðungi síðasta árs jókst um 2,5% samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Þjóðarútgjöld jukust hinsvegar talsvert meira eða um 3,2% með tilheyrandi halla á viðskiptum við útlönd. Innflutningur dróst saman um 0,6% en jókst Einkaneysla jókst um 1,2% á sama tímabili, samneysla um 2,9% og fjárfesting um 3,4%.