Í dag var stofnað á Austurlandi Viðskiptaráð Austurlands (VA). Í stjórn VA sitja þeir Tómas Már Sigurðsson forstjóri Alcoa Fjarðaáls formaður, Björgólfur Jóhannsson forstjóri Síldarvinnslunnar hf., Elísabet Benediktsdóttir svæðisstjóri Íslandsbanka á Austurlandi, Jens Garðar Helgason framkvæmdastjóri Fiskimiða ehf. og Sigurður Grétarsson framkvæmdastjóri Héraðsverks ehf.

Markmið Viðskiptaráðs Austurlands eru að:

Vera málsvari aukins frelsis í viðskiptum og minni ríkisafskipta

Efla tengslanet fyrirtækja sem starfa á Austurlandi við önnur íslensk og erlend fyrirtæki.

Efna til umræðu um málefni er varða vöxt viðskiptalífs og framtiðaruppbyggingu á Austurlandi

Kynna Austurland sem fjárfestingu og starfsvettvang fyrirtækja og fjárfesta annars staðar frá.

Aðilar að Viðskiptaráði Austurlands eru fyrirtæki innan Viðskiptaráðs Íslands sem stunda viðskipti á Austurlandi eða hafa áhuga á uppbyggingu svæðisins.

Tómas Már Sigurðsson formaður Viðskiptaráðs Austurlands segir að með stofnun ráðsins skapist spennandi vettvangur til að ræða um málefni viðskiptalífsins á Austurlandi. ?Á vaxtarsvæði eins og Austurlandi þarf að ræða hvernig megi laða að fleiri fyrirtæki og fjárfesta," segir Tómas Már. ?Rétt eins og Viðskiptaráð Íslands hefur sett menntun á oddinn í sinni starfsemi um langt skeið tel ég að ein forsenda frekari uppbyggingar hér sé að hlúð sé enn frekar að menntamálum ? Austurland á að geta orðið enn öflugra þekkingarsamfélag. Að því mun Viðskiptaráð Austurlands vinna."