Viðskiptaráð Íslands fagnar ákvörðun Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, um að leita álits hjá óháðum, erlendum fræðimanni á fyrirkomulagi og framkvæmd peningastefnu Seðlabanka Íslands, að því er segir í frétt sem Viðskiptaráð hefur sent frá sér. Þar segir ennfremur að undanfarið hafi íslenska krónan reynst fyrirtækjum og einstaklingum fjötur um fót, enda hafi verðbólga verið viðvarandi, gengissveiflur miklar og vaxtastig hátt.

„Á síðustu misserum hefur Seðlabankinn mátt sæta tíðri gagnrýni fyrir framkvæmd peningamálastefnunnar, mis málefnalegri þó. Trúverðugleiki er verðmætasta eign hvers seðlabanka, sérstaklega þegar hann vinnur eftir verðbólgumarkmiði. Það er því mikilvægt að bankinn njóti stuðnings í aðgerðum sínum og ekki sé grafið undan trúverðugleika hans með gagnrýni sem er ekki á rökum reist. Ein besta leiðin til að svo megi verða er að fá erlenda, óháða sérfræðinga til að meta árangur og gæði peningamálastefnu bankans. Í skýrslu síðasta Viðskiptaþings, Íslenska krónan: byrði eða blóraböggull?, vakti Viðskiptaráðs máls á þessum möguleika og það er mikið fagnaðarefni að stjórnvöld skuli hafa ákveðið að fara þessa leið.

Aðferðin hefur þegar verið nýtt víða erlendis af seðlabönkum sem starfa eftir verðbólgumarkmiði, líkt og sá íslenski. Sem dæmi má nefna úttekt á gæðum peningamálastefnu Seðlabanka Nýja Sjálands, Noregs  og Svíþjóðar (Giavazzi og Mishkin, 2006). Á meðal þess sem kannað var má nefna hvort markmið bankanna væru rétt mótuð, hvort verðbólgumarkmiðið væri skynsamlegt, hversu árangursrík peningastefnan hefði verið, hvort spágerð og ákvarðanataka út frá henni væri rökrétt, hvort gagnsæi og upplýsingamiðlun væri eins og best gerist, hversu skilvirk stýritæki bankanna væri, hversu vel þeir hefðu staðið sig í alþjóðlegum samanburði og fleira.

Fjölda spurninga um málefni og störf Seðlabanka Ísland er ósvarað, sérstaklega í ljósi þess að hér hefur ekki tekist að hemja verðbólgu á þeim sjö árum sem liðin eru frá upptöku verðbólgumarkmiðs.  Úttekt að þessu tagi er því þarft innlegg í umræðuna og mun fela í sér uppbyggileg gagnrýni á fyrirkomulag og framkvæmd peningastefnu Seðlabanka Íslands og gagnast þannig , bæði Seðlabankanum og íslensku hagkerfi. Þetta skref stjórnvalda er því mikilvægt í átt til uppbyggingar á trúverðugleika og þar með árángri Seðlabanka Íslands í baráttu sinni við að halda verðlagi stöðugu,“ segir í frétt Viðskiptaráðs.