Viðskiptaráð Íslands, áður Verslunarráð Íslands, leggur til að rekstur Nýsköpunarsjóðs verði einkavæddur. Það er skoðun Viðskiptaráðs að fyrirhuguð sala á Lánasjóði landbúnaðarins og umræða um hugsanlegar breytingar á Íbúðalánasjóði vekji upp spurningar um hvort hugsanlegt sé að gagnger endurskoðun fari fram á fleiri opinberum sjóðum. "Nýsköpunarsjóður er ríkisstofnun sem stendur á tímamótum og fjármuni vantar til reksturs hennar. Á sama tíma og íslenskt fjármálakerfi hefur margfaldast að stærð hefur stofnunin veikst og afskriftir lána og hlutafjáreignar fara vaxandi. Við teljum því tímabært að endurskoða forsendur rekstursins eins og hann er í dag," sagði Þór Sigfússon, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.

Það er skoðun Viðskiptaráðs að óhagkvæmni lítilla ríkisstofnanna sé mikil. Þá sé innan lítilla stofnanna tæpast að finna sambærilega sérfræðiþekkingu og hjá stóru fjármálafyrirtækjunum þegar kemur að því að verða bakhjarlar fyrirtækja í nýsköpun. Ekkert sé því til fyrirstöðu að bjóða út rekstur og fjárfestingar Nýsköpunarsjóðs í núverandi mynd. Um leið er mikilvægt að koma því svo fyrir að það fjármagn sem ríkisvaldið ætlar til nýsköpunar í framtíðinni verði nýtt til samvinnuverkefna við fjármálastofnanir. Ef fallist er á það að ríkið eigi að taka þátt í nýsköpun þá er ákjósanlegast að allar fjármálastofnanir eigi jafnan möguleika á þátttöku í verkefnum með sjóðnum en honum yrði eftir sem áður stýrt af óháðri stjórn hans sem legði mat á verkefni hverju sinni, segir í ályktun Viðskiptaráðs.

"Kúnstin við fjármögnun nýsköpunar er að til staðar sé áhættufé og víðtæk þekking og þjónusta fjármálastofnana nýtt til hins ítrasta. Með því að einkavæða NSA og setja hvata í fjármálakerfið að fjármagna nýsköpun kann að vera að við getum slegið tvær flugur í einu höggi, einkavætt opinberan sjóð en eflt um leið nýsköpunarverkefni," sagði Þór.

Að sögn Gunnars Arnars Gunnarssonar, framkvæmdastjóra Nýsköpunarsjóðs, er vandinn ekki hjá Nýsköpunarsjóði sem hann taldi standa traustum fótum með peningalegar eignir upp á einn og hálfan milljarð króna. "Það má hins vegar segja að það sé skortur á fjármagni til nýsköpunar í landinu og það tengist ekki rekstrarformi Nýsköpunarsjóðs," sagði Gunnar Örn í samtali við Viðskiptablaðið í dag en hann sagðist gera sér grein fyrir því að tilhneiging væri víða til þess að einkavæða rekstur eins og Nýsköpunarsjóður stæði fyrir. Það breytti því ekki að eftir sem áður yrði að hugsa til þess að afla fjár til nýsköpunar.